Hagnaður Atorku Group eftir skatta á árinu 2007 var 8.141 milljónir króna. Hagnaður eftir skatta á fjórða ársfjórðungi var 1.371 milljónir króna, borið saman við 142 milljóna króna meðalspá greinenda. Tekjuskattur félagsins var jákvæður liður í rekstrarreikningi, sem nemur tveimur milljörðum króna. Í tilkynningu félagsins kemur fram að heildareignir í lok árs voru um 62.325 milljónir króna, jukust um 45% á milli ára.

Eigið fé var 23.376 milljónir króna 31. desember 2007, sem er aukning um 36% frá árslokum 2006 að teknu tilliti til arðgreiðslu. Arðsemi eigin fjár á árinu 2007 var 47%. Eiginfjárhlutfall er 38%. Hagnaður á hlut  er 2,58.

Í tilkynningu segir að Atorka hafi endurfjármagnað stærstan hluta af skammtímalántökum sínum, með nýjum lántökum til 2 ára eða lengur. Aðeins 9% af langtímaskuldum eru til greiðslu á árinu 2008.

Í tilkynningu kemur einnig fram að allar fjárfestingar eru færðar á markaðsvirði eða gangvirði (e. fair value) og eru engar fjárfestingar utan efnahagsreiknings. Félagið hefur sterka fjárhagsstöðu og er vel fjármagnað og með sterka stöðu handbærs fjár.

"Afkoma Atorku fyrir árið 2007 var góð þrátt fyrir krefjandi markaðsaðstæður. Atorka innleysti verulegan hagnað með sölu á einu af fjárfestingarverkefnum sínum.  Jafnframt fjárfesti félagið í nýju verkefni, Geysir Green Energy og er í dag stærsti hluthafi þess með um 44% hlut. Innan Geysis er unnið að fjölda verkefna í Evrópu, Asíu og Ameríku og hefur félagið sterka stöðu til þess að verða leiðandi í nýtingu á jarðvarma í heiminum. Atorka er í auknum mæli að beina sjónum sínum að Asíu nú síðast með kaupum á um 14% hlut í Asia Environment Holding sem er leiðandi félag í uppbyggingu á vatnshreinsistöðvum í Kína og víðar í Asíu.  Ljóst er að með aukinni velmegun munu Kínverjar fjárfesta verulega í bættum lífsgæðum og sjáum við því mikil tækifæri í fjárfestingum því tengdu. Atorka er með mjög sterka fjárhagsstöðu og í góðri stöðu til að nýta sér þau tækifæri sem munu skapast á komandi misserum," segir Magnús Jónsson, forstjóri félagsins, í tilkynningu.