Að sögn Magnúsar Jónssonar, forstjóra Atorku Group, eru stjórnendur félagsins með áform um að ráðast í ný og stærri verkefni innan skamms. Sagði Magnús að þar væri horft til verkefna af stærðagráðunni 500 milljónir evra (46 milljarðar króna) og jafnvel stærri. Magnús sagði að sterk fjárhagsstaða félagsins gerði því kleift að ráðast í slík verkefni. Hann vildi þó ekki tjá sig um það hvort einhver verkefni af þessu tagi séu í skoðun núna.

"Ef reikningar félagsins eru skoðaðir kemur í ljós að allar okkar skuldir eru í formi skuldabréfaútgáfu. Bankaskuldir félagsins eru því litlar sem engar og við höfum ekkert nýtt þær bankalínur sem okkur standa til boða. Félagið hefur því gott svigrúm til að ráðast í stór kaup ef svo býður við að horfa." Ef horft er á þetta í samhengi má segja að Atorka Group hafi tækifæri til skuldsettrar yfirtöku þó Magnús hafi ekki viljað tjá sig um það.

"Við höfum verið að horfa á alþjóðleg félög og þó að fjárfestingar okkar hafi einkum verið í Bretlandi erum við ekkert sérstaklega að horfa þangað. Við horfum allt eins til Austur-Evrópu og Asíu. Við teljum að það séu enn mikið af ónýttum tækifærum og þá sérstaklega á meginlandi Evrópu."

Magnús benti á að þær yfirtökur sem félagið hefði ráðist í til þessa hefðu verið að litlu leyti skuldsettar. Má sem dæmi nefna að félagið tók á sig litlar skuldir vegna yfirtöku Jarðborana sem gerði því kleift að greiða út háan arð. Magnús sagði þó að félagið horfði einkum til skuldsettrar yfirtöku með þátttöku viðkomandi stjórnenda og hann benti á að til þessa hefðu þeir verið með 30 til 50% eiginfjárhlutfall í þeim verkefnum sem þeir hefðu ráðist í.

Að sögn Magnúsar er ekki talin nein þörf á hlutafjáraukningu hjá félaginu og leitaði stjórn þess ekki eftir heimild þar um á síðasta aðalfundi félagsins.

Hagnaður Atorku á fyrsta ársfjórðungi nam 4.016 milljónum króna eftir skatta sem er langt umfram spá greiningardeildar Landsbankans sem spáði 1.311 milljóna króna hagnaði. Skýrist mismunurinn nánast að öllu leyti af hárri arðgreiðslu frá Jarðborunum og áhrifum innleiðingar á IFRS reikningsskilastöðlum, atriði sem ógerningur var að spá fyrir um.

Áhrif IFRS á móðurfélagið (Fjárfestingarfélagið Atorku) eru einna helst þau að félög Atorku, sem eru í umbreytingarferli, verða framvegis færð á gangvirði. Þannig er verðmat á Promens nú að hluta til uppfært í uppgjöri Atorku og nemur uppfærslan 2.973 milljónum króna.

Markaðsverðmæti Atorku er 18,7 milljarðar króna miðað við lokagengi þriðjudagsins, 5,55. "Árangur Atorku á árinu hefur verið ágætur og við mælum með að fjárfestar markaðsvogi bréf sín í vel dreifðu eignasafni," sagði greiningardeild Landsbankans.