Atorka Group hefur selt allan eignarhlut sinn í Low and Bonar plc. eða 22,1% hlut. Söluandvirði hlutarins nemur rúmlega 3,8 milljörðum króna. Með sölunni innleysir Atorka söluhagnað sem nemur rúmlega 1 milljarði króna segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Hluturinn var seldur til fagfjárfesta. Í tilkynningunni kemur fram að Atorka hefur átt gott samstarf við Low and Bonar og keypti Promens, félag í eigu Atorku síðastliðið sumar plasteiningu félagsins, Bonar Plastics.

Atorka Group mun nota fjármunina til nýrra fjárfestinga. Atorka tilkynnti í síðastliðinni viku um að eignarhlutur félagsins í InterBulk hafi verið aukinn í rúmlega 23% auk þess sem Atorka hefur keypt um 5% eignarhluta í Amiad Filtration Systems sem skráð er í Kauphöllinni í London. Amiad er leiðandi á alþjóðamarkaði í framleiðslu á vatnshreinsibúnaði og síum til annars vegar iðnaðar og sveitarfélaga og hins vegar til áveitugerðar.

Handbært fé Atorku að lokinni sölunni nemur um 8 milljörðum króna.