Atorka Group og fjárfestingafélagið Straumborg hafa keypt meirihluta hlutafjár í 3X Technology ehf. á Ísafirði, segir í fréttatilkynningu. Með tilkomu nýrra hluthafa er stefnt að frekari vexti fyrirtækisins bæði með innri vexti byggðum á vöruþróun fyrirtækisins og ytri vexti með kaupum á fyrirtækjum á starfssviði 3X-Technology. Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp.

?Við sjáum mikla möguleika á innri og ytri vexti með 3X Technology, en félagið hefur sannað sig sem eitt helsta samstarfsfyrirtæki íslensks sjávarútvegs á síðustu árum?, sagði Geir Gunnlaugsson, nýr stjórnarformaður félagsins, sem áður hét 3X Stál

?Það er mikil viðurkenning fyrir okkur að fá jafn reynslumikla og sterka fjárfesta eins og Atorku og Straumborg. Við höfum fundið fyrir því að við eigum mikla möguleika á fleiri mörkuðum en í sjávarútvegi og við ákváðum því að breyta nafni félagsins til að endurspegla betur vörur og þjónustu þess?, segir Jóhann Jónasson, forstjóri og annar stofnenda félagsins.

Kaupin eru háð niðurstöðu áreiðanleikakönnunar. Fyrirtækjaráðgjöf Glitnis hefur veitt ráðgjöf vegna kaupanna.

Vöruþróun hefur alla tíð skipað veglegan sess hjá 3X Stál og hlaut félagið Útflutningsverðlaun Forseta Íslands árið 2006. Í dag eru starfsmenn 3X Technology 50, flestir við störf á Ísafirði, en einnig á söluskrifstofu fyrirtækisins í Reykjavík.

Stofnendur 3X Technology, þeir Albert Högnason og Jóhann Jónasson munu starfa áfram hjá félaginu og eiga tæpan helming hlutafjár. Ný stjórn félagsins skipa þeir Geir A. Gunnlaugsson, formaður og meðstjórnendur Guðmundur Jónsson og Jóhann Jónasson, sem jafnframt er forstjóri félagsins.

Atorka Group er alþjóðlegt fjárfestingarfélag sem er skráð í Kauphöll Íslands. Atorka fjárfestir í traustum fyrirtækjum sem eru í atvinnugreinum sem hafa sérstök tækifæri til vaxtar á heimsmarkaði. Straumborg er fjárfestingarfélag í eigu Jóns H. Guðmundssonar og fjölskyldu.