Breskir fjölmiðlar segja frá því í dag að líklegt sé að Atorka Group hafi gert kauptilboð í breska félagið Low & Bonar fyrir rúmlega 135 milljónir punda (14,9 milljarðar íslenskra króna).

Í frétt The Times segir að Atorka eigi 22% hlut í Low & Bonar og þar er einnig greint frá kaupum Atorku á plastframleiðslueiningu Low & Bonar fyrr á þessu ári. Blaðið segir að Atorka og Low & Bonar hafi samið um að Atorka gerði ekki tilboð í félagið án samþykkis stjórnar Low & Bonar fyrr en í júlí 2007.

Low & Bonar sendi frá sér tilkynningu í kauphöllina í London, þar sem félagið er skráð, og staðfesti að ónafngreint fyrirtæki hafi áhuga á að kaupa félagið. Í tilkynningunni segir að ekki sé víst að viðræðurnar leiði til þess að formlegt kauptilboð berist.

Gengi bréfa Low & Bonar hækkaði um 7% í gær vegna yfirtökuorðrómsins