Tap Atorku miðað við móðurfélagsreikning nemur 2 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi. Samtals hefur félagið tapað tæpum 4 milljörðum á fyrstu sex mánuðum ársins.

Meðalspá greiningardeilda gerði ráð fyrir 1,7 milljarða króna tapi, og er afkoman því undir væntingum.

Heildareignir móðurfélagsins numu 56,9 milljörðum króna í lok júní og hafa hækkað um 4% frá áramótum. Þá var eigið fé  17,2 milljarðar í lok júní mánaðar og eiginfjárhlutfallið nam 30,2%.

Samkvæmt samstæðureikningi nam tap eftir skatta á öðrum ársfjórðungi 1,5 milljarði og samtals nemur tapið á fyrri helmingi ársins 8,7 milljörðum króna. Heildareignir samstæðunnar námu 115 milljörðum í lok júní.

Magnús Jónsson, forstjóri Atorku, segir m.a. í tilkynningu:

„Þrátt fyrir lækkanir á skráðum eignum þá horfum við bjartsýnum augum á eignasafn félagsins til lengri tíma. Ég tel að aukin áhersla félagsins á endurnýtanlega orku, vatnshreinsigeirann og umhverfistækni muni skila góðri arðsemi til framtíðar litið.“

Einnig kemur fram í tilkynningu að Atorka tók þátt í að breikka hluthafahóp Geysis Green Energy með aðkomu öflugra aðila að félaginu. Þá segir að önnur fjárfestingaverkefni Atorku gangi í samræmi við áætlanir, þrátt fyrir krefjandi ytri aðstæður.

Nánar verður fjallað um uppgjörið í Viðskiptablaðinu á morgun.