*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 17. maí 2013 15:25

Atorku gert að greiða Glitni rúma þrjá milljarða

Atorka tapaði í dag máli gegn Glitni vegna uppgjörs á gjaldmiðlaskiptasamningum frá árunum 2007 og 2008.

Ritstjórn

Atorka hefur af Héraðsdómi Reykjavíkur verið dæmd til að greiða Glitni rúma 3,1 milljarða króna með dráttarvöxtum vegna gjaldmiðlaskiptasamninga og samninga um gjaldmiðlaviðskipti og framvirk gjaldmiðlaviðskipti sem gerðir voru á árunum 2007 og 2008.

Segja má að héraðsdómur taki að öllu leyti undir kröfur og rök Glitnis, sem höfðaði málið. Helsta vörn Atorku byggðist á því að með því að lýsa því yfir einhliða í október 2008 að kröfur á bankann yrðu að meginstefnu ekki greiddar að svo stöddu hafi bankinn í raun rift samningunum og því bæri Atorku ekki skylda til að uppfylla þá.

Í niðurstöðu dómsins segir hins vegar að ekkert í málinu styðji það að Atorka hafi litið svo á haustið 2008 að samningarnir við Glitni væru fallnir niður sökum riftunar. Hafi Atorka borið fyrir sig þessa málsástæðu með greinargerð sem lögð var fram 22. mars 2012, þ.e. rúmum þremur árum eftir að fyrirtækið taldi að samningarnir hafi fallið niður.

„Samt sem áður höfðu mál tengd samningunum þremur um gjaldmiðlaviðskipti og framvirk gjaldmiðlaviðskipti áður verið til umfjöllunar hjá dómstólum, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 1. desember 2011, í málinu nr. 129/2011 er varðaði heimild stefnanda til skuldajöfnunar við uppgjör á þeim. Er því fallist á það með stefnanda að stefndi hafi með þessu tómlæti sínu glatað rétti til að bera fyrir sig að umræddir samningar hafi fallið niður sökum riftunar hafi rétturinn á annað borð verið til staðar,“ segir í dómnum.

Þá var því hafnað að forsendur samninganna hefði brostið vegna hrunsins, en Atorka hélt því fram fyrir dómi að haustið 2008 hafi Glitnir verið ófær um að standa við skuldbindingar sínar, en ákvörðunarástæða Atorku hafi verið sú að Glitnir gæti staðið við þá. Dómurinn segir Atorku hafa tekið áhættu með gerð gjaldmiðlaskiptasamninganna og skylda fyrirtækisins samkvæmt samningunum hafi verið skýr.

Lesa má dóminn í heild sinni hér.

Stikkorð: Glitnir Atorka