Atorka Group hf. sem var í mörg ár eitt af umsvifamestu fjárfestingarfélögum landsins hefur selt síðustu eign sína og verður eignarhaldsfélaginu slitið fyrir áramót. Þetta kemur fram í frétt DV um málið.

Eignir greiddar út

Í júlí síðastliðinn tóku hluthafar félagsins þessa ákvörðun, og verða eignir félagsins greiddar út við slitin til hluthafanna, en þeir samanstanda gróflega af þremur blokkum, fyrst má nefna Íslandsbanka/Glitni, síðan hóp yfir tuttugu lífeyrissjóða og loks Arion banka.

Síðustu sex ár hefur félagið gegnt hlutverki eignarhaldsfélags um ráðstöfun eignasafns félagsins, en þeir Einar Páll Tamimi lögmaður og Halldór Bjarkar Lúðvígsson fyrrverandi framkvæmdastjóri fjárfestingabankasviðs Arion banka hafa setið í stjórn Atorku síðan kröfuhafarnir eignuðust allt hlutafé félagsins.

Síðasta eignin seld

Í apríl síðastliðnum var síðasta eign félagsins, hlutabréf í alþjóðlega flutningafyrirtækinu InterBulk sem félagið keypti fyrst í árið 2006, seld.

Í október 2007 voru hlutabréf í fyrirtækinu að andvirði 37 milljarða króna, og greiddu hluthafar þess sér alls 4,4 milljarða arð á árunum 2005 til 2007. Á fyrri helmingi ársins 2008 tapaði fyrirtækið hins vegar 8,7 milljörðum króna og var það tekið úr viðskiptum í kauphöllinni 13. október 2008.

Arðgreiðsla rétt fyrir neikvæða afkomutilkynningu

Aðalfundur félagsins tók ákvörðun um 2,1 milljarða króna arðgreiðslu til hluthafa þess aðeins rétt rúmum fjórum mánuðum áður en afkomutilkynning fyrir tímabilið var kynnt.

Í desember árið 2009 voru eignir Atorku metnar á 104 milljarða króna, en skuldirnar námu hins vegar 138 milljörðum og var því eigið fé félagsins neikvætt um 34 milljarða.

Kröfuhafar tóku yfir

Í ársbyrjun 2010 tóku kröfuhafarnir yfir félagið og var hlutafé þáverandi eigenda fært niður að fullu. Þeir voru mjög ósáttir og töldu að framtíðarvirði eigna þess hefði verið virt að vettugi.

Skilanefnd Landsbankans þurfti hins vegar að afskrifa rúmlega sex milljarða króna vegna lánveitinga til félaga í eigu fyrrverandi eigenda og stjórnenda Atorku sem höfðu þá öll verið tekin til gjaldþrotaskipta.