Bandaríski símarisinn AT&T lagði í dag fram lokatilboð sitt til um 27 þúsund starfsmanna en kjarasamningar starfsmannanna voru lausir og höfðu samningaviðræður staðið yfir í um viku.

Hjá AT&T starfa alls um 299 þúsund manns og því er hér um að ræða 9% starfsmanna félagsins.

Ólíkt því sem gerist hér á landi þá mynda starfsmenn stórfyrirtækja sín eigin verkalýðsfélög og semja beint við fyrirtækin um kaup og kjör. Nú þegar eru hafnar viðræður við aðra starfsmenn en um 85 þúsund starfsmenn félagsins starfa nú undir kjarasamningi sem verður laus í haust.

Núverandi viðræður hafa helst strandað á framlagi AT&T til sjúkratrygginga starfsmanna en himinn og haf hefur verið á milli þess sem fyrirtækið bauð í hækkanir og þess sem stéttarfélagið krafðist. Samkvæmt Reuters fréttastofunni var fundað stíft alla helgina og hefur fyrirtækið nú lagt fram lokatilboð sem talið er að stéttarfélagið samþykki.