Vaxtafundur Seðlabanka Íslands
Vaxtafundur Seðlabanka Íslands
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Seinni leggur í gjaldeyrisútboði Seðlabankans, þar sem bankinn bauðst til að kaupa evrur gegn greiðslu í nýjum löngum ríkisskuldabréfum í krónum, fór fram í fyrradag. Útboðin tvö eru þau fyrstu sem ráðist er í samkvæmt áætlun um afnám gjaldeyrishafta. Í seinna útboðinu bauðst bankinn til að kaupa 64 milljónir evra, en áður hafði bankinn keypt aflandskrónur að fjárhæð 13,4 milljarðar króna og notaði til þess fé úr gjaldeyrisforða. Með seinna útboðinu vildi bankinn endurheimta þær evrur sem notaðar voru í fyrra útboðinu.

Alls bárust tilboð í skuldabréfin að fjárhæð 71,8 milljónir evra, um 8 milljónum meira en sett hámark Seðlabankans. Tilboðum var hinsvegar tekið fyrir rúmlega 61,7 milljónir. Þeir sem óskuðu eftir að fá 210 krónur fyrir sína evru, sem var hámarkstilboð sem mátti bjóða, fengu 80% af því sem þeir óskuðu eftir.

Lífeyrissjóðir sem tóku þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabankans
Lífeyrissjóðir sem tóku þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabankans
Viðskiptablaðið leitaði til ellefu stærstu lífeyrissjóða landsins og spurði hvort þeir hefðu tekið þátt í útboðinu. Einungis tveir þeirra voru ekki þátttakendur, Stapi og Frjálsi lífeyrissjóðurinn. Ekki náðist í Gildi lífeyrissjóð. Þeir lífeyrissjóðir sem upplýstu Viðskiptablaðið um á hvaða gengi var boðið óskuðu allir eftir 210 krónum fyrir evru. Tilboðsgjafar sem sættu sig við lægra gengi fengu það sem þeir vildu fá.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.