Átta ár hefur tekið að festa sögu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á blað og kostnaður við verkið verður ekki undir 21 milljón króna. Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að til stendur að gefa bókina út í ár.

"Það stendur enn til að gefa söguna út," segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, í skriflegu svari við fyrirspurn Fréttablaðsins. Hún segir að búið sé að rita söguna, en myndvinnslu sé ekki lokið. Sigrún segir að ef allt gangi að óskum ætti bókin að koma út í ár. Það ráðist að einhverju leyti af umfangi vinnu við ljósmyndir, en þeirri vinnu sé enn ekki lokið.

Byrjað var að huga að ritun sögu ÁTVR fyrir tíu árum, þótt kostnaðaráætlun hafi ekki verið gerð fyrr en árið 2006. Í ávarpi forstjóra ÁTVR í ársskýrslu verslunarinnar fyrir árið 2005 segir að áformað sé að sagan komi út á árinu 2007, þegar ÁTVR varð 85 ára. Það gekk ekki eftir.