„Það var við að rétta nagla hjá pabba mínum í byggingarbransanum þegar ég var átta ára,“ segir Helgi Gunnarsson, forstjóri Regins, um sitt fyrsta starf. Faðir hans rak fyrirtækið Akur-ey og þótti Helga starfið mjög spennandi á þessum tíma. „Síðan hef ég verið í þessum byggingarbransa,“ segir Helgi sem vann flest sumur við byggingar og lærði síðar trésmíði.

„Það er gaman að alast upp við svona fag sem maður fer síðan að vinna við í framtíðinni,“ segir hann um áhuga sinn sem mótaðist snemma.

„Þetta er bara eins og menn gerðu í gamla daga á meginlandi Evrópu þar sem menn fæddust inn í ákveðnar starfsstéttir.“ Helgi bætir við að ekki sé alveg útséð með það hvort hann nái að miðla þekkingu sinni til komandi kynslóða.