Átta fyrrverandi bankastjórar, stjórnendur og háttsettir fyrrverandi starfsmenn gömlu viðskiptabankanna hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald að kröfu Embætti sérstaks saksóknara í tengslum við rannsókn á viðskiptum gömlu bankanna í aðdraganda hrunsins. Fleiri hafa verið handteknir í tengslum við rannsóknirnar og tugir manna verið yfirheyrðir.

Handtökur hófust í maí í fyrra sem leiddu til gæsluvarðhalds yfir þremur fyrrverandi stjórnendum Kaupþings. Fyrrverandi stjórnendur Landsbankans þurftu að dúsa inni í janúar. Í gær var svo Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, og tveir aðrir fyrrverandi starfsmenn úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald. Engu máli tengt gömlu viðskiptabönkunum er lokið. Ólafur Þ. Hauksson, sérstakur saksóknari, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í byrjun október tugi mála tengjast föllnu bönkunum og stefnt að því að ljúka rannsóknum 10 málum fyrir áramót. Rannsóknum embættisins lýkur annað hvort með því að ákæruskjöl eru gefin út eða ákvörðun er tekin um að fella mál niður.

Í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun var hins vegar haft eftir Ólafi að óvíst væri hvort það markmið næðist.

Í grófum dráttum eru málin af keimlíkum toga: meint markaðsmisnotkun í þeim tilgangi að halda eða hífa upp gengi hlutabréfa gömlu bankanna. Þar á meðal eru lánveitingar til vildarvina bankanna og útlán til fyrirtækja tengd eigendum bankanna með einum eða öðrum hætti.

Hér er listi yfir þá sem hafa sætt gæsluvarðhaldi ásamt öðrum lykilpersónum sem komið hafa við sögu í rannsókn á falli bankanna. Upptalningin er langt í frá tæmandi.

Kaupþing - maí 2010

Hreiðar Már Sigurðsson , fyrrverandi forstjóri Kaupþings-samstæðunnar - gæsluvarðhald í tólf daga

Hreiðar Már Sigurðsson.
Hreiðar Már Sigurðsson.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Magnús Guðmundsson , fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg – gæsluvarðhald í viku

Ingólfur Helgason , fyrrverandi bankastjóri Kaupþings á Íslandi – gæsluvarðhald í viku

Sigurður Einarsson , fyrrverandi starfandi stjórnarformaður Kaupþings - hann hlýddi ekki boðun sérstaks saksóknara um skýrslutöku og var alþjóðleg handtökuskipun gefin út á hendur honum í kjölfarið. Hún var síðar dregin til baka

Steingrímur P. Kárason , fyrrverandi forstöðumaður áhættustýringar Kaupþings – farbann

Landsbankinn - janúar 2011

Sigurjón Þ. Árnason , fyrrverandi bankastjóri Landsbankans – gæsluvarðhald í tíu daga

Sigurjón Þ. Árnason
Sigurjón Þ. Árnason
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Ívar Guðjónssyni , fyrrverandi forstöðumaður eigin viðskipta hjá Landsbankanum - vikulangt gæsluvarðhald.

Halldór J. Kristjánsson , fyrrverandi bankastjóri Landsbankans – farbann

Glitnir - nóvember 2011

Lárus Welding , fyrrverandi bankastjóri Glitnis - vikulangt gæsluvarðhald

Glitnir uppgjör 07.05.08
Glitnir uppgjör 07.05.08
© BIG (VB MYND/BIG)

Jóhannes Baldursson , fyrrverandi framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Glitnis - vikulangt gæsluvarðhald

Ingi Rafnar Júlíusson , fyrrverandi verðbréfamiðlari hjá Glitni - vikulangt gæsluvarðhald