Átta bensínstöðvum Skeljungs verður í dag breytt í Orkuna X. Á þeim stöðvum verður „einfaldlega boðið upp á lægra dæluverð fyrir alla,“ að því er segir í fréttatilkynningu. Engir afslættir verða virkir á þessum stöðvum heldur verður eitt fast verð fyrir alla viðskiptavini.

Í tilkynningunni er haft eftir Valgeiri Baldurssyni, forstjóra Skeljungs, að með breytingunni sé verið að auka fjölbreytni fyrir neytendur. Það hafi verið markmið Orkunnar frá upphafi að bjóða upp á lægsta dæluverðið. Með breytingunum sé stigið næsta skref þar sem nú geti allir gengið að enn lægra verði á stöðvum Orkan X.

„Stöðvar Orkunnar X á höfuðborgarsvæðinu eru við Eiðistorg, Miklubraut, Spöngina í Grafarvogi og á Skemmuvegi í Kópavogi. Á landsbyggðinni má finna stöðvar á Smiðjuvöllum Akranesi, við Miðvang á Egilsstöðum, við Sunnumörk í Hveragerði og Kjarnagötu á Akureyri,“ segir í tilkynningunni.