Ríkissjóður hefur greitt hátt í tíu milljarða króna í tekjufallsstyrki frá upphafi heimsfaraldursins. Til viðbótar hafa um 2,3 milljarðar verið greiddir í viðspyrnustyrki og annað eins í lokunarstyrki. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Aðgerðir ríkisins undanfarna mánuði, til að bregðast við þrengingum sökum heimsfaraldursins, hafa hingað til numið um 80 milljörðum króna. Þá er úttekt séreignarsparnaðar, að upphæð 27 milljarðar, og auknar endurgreiðslur virðisaukaskatts ekki meðtaldar.

Einstaklingum á hlutabótum fækkaði um 400 í mars samanborið við ársbyrjun. Alls eru nú tæplega 4.200 á hlutabótum en þeir voru þegar mest lét tæplega 33 þúsund. Alls voru 23,5 milljarðar greiddir í hlutabætur á síðasta ári. Því til viðbótar voru 54 milljarðar króna greiddir í gegnum atvinnuleysisbótakerfið.

Brúarlánin svokölluðu, sem ætlað var að vera ein stærsta viðspyrnuaðgerð hins opinbera, hefur verið í mýflugumynd miðað við upphaflegar áætlanir. Alls hafa verið gefin út átta viðbótarlán fyrir um 2,7 milljarða króna. 23 fyrirtæki hafa fengið leyfi til greiðsluskjóls. Þá hafa 12 milljarðar króna verið greiddar í formi styrks á uppsagnarfresti og launagreiðslur í sóttkví nema 380 milljónum króna.