Þrjú fyrirtæki hafa óskað eftir því að fá lóð á iðnaðar- og hafnarsvæðinu í Helguvík. Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafa undirritað viljayfirlýsingar við þau. Í Fréttablaðinu í dag segir að fyrirtækin stefni á framleiðslu á vörum fyrir bílaiðnað og í því þriðja fyrirtæki sem vill vinna kísil. Fyrirtækin þrjú bætast í hóp fimm annarra verkefna sem stefnt er að í Helguvík. Ekkert þeirra er í hendi, að því er segir í blaðinu.

Á meðal hinna verkefnanna er bygging tveggja kísilmálmverksmiðjar á svæðinu. United Silicon hyggst reisa verksmiðju og hefja starfsemi í apríl 2016. Þá stefnir Thorsil á framleiðslu kísilmálms í Helguvík. Þá úthlutaði Reykjaneshöfn, fyrirtækið sem rekur hafnir Reykjanesbæjar, félaginu Brúarfossi hf. lóð í Helguvík í nóvember 2012 undir vatnsverksmiðju. Brúarfoss hyggst fara í vatnsútflutning til þróunarlanda og hefur gert sölusamning við góðgerðarfélag í Kanada sem vill dreifa vatninu til flóttamannabúða Sameinuðu þjóðanna. Atlantic Green Chemicals (AGC) hefur stefnt að byggingu lífalkóhól- og glýkólverksmiðju í Helguvík frá árinu 2008. Félagið áformar að nýta varmaorku frá kísilmálmverksmiðjum á svæðinu til framleiðslu á efnunum. Þau eru meðal annars notuð í ýmis plastefni, snyrtivörur og afísingarvökva fyrir flugvélar. Þá er ótalið 180 álver Norðuráls í Helguvík.

Í Fréttablaðinu er rifjað upp að lítið hafi þokast í tengslum við álverið, sem Norðurál hefur stefnt að í Helguvík síðan árið 2004. Fyrsta skóflustunga var tekin í júní 2008 og þá var farið í framkvæmdir á svæðinu en þar hefur ekkert gerst frá síðustu áramótum.