Hagnaður Íslandsbanka eftir skatta nam 8,3 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við 4,6 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Munurinn á milli ára liggur að stærstum hluta í hagnaði vegna sölu eignarhluta í aflagðri starfsemi.

Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 19,3% en var 12,2% í fyrra. Arðsemi eigin fjár hækkaði þrátt fyrir að eigið fé bankans hækkaði um 15% á milli ára frá 152 milljörðum króna í 175 milljarða króna

Hreinar vaxtatekjur voru 6,6 ma. Kr og lækka um 11,1% milli ára. Hreinar þóknanatekjur voru 2,9 milljarðar króna á fyrsta fjórðungi en voru 2,5 milljarðar sem er hækkun um 16,4% á milli ára og má að mestu rekja til markaða, viðskiptabanka, eignastýringar og dótturfélaga bankans.

„Við erum ánægð með afkomu fyrsta ársfjórðungs þar sem við sjáum aukna arðsemi, hækkun þóknanatekna og áframhaldandi lækkun kostnaðar milli ára. Svo virðist sem markaðurinn hafi tekið við sér sem endurspeglast í aukinni eftirspurn eftir útlánum sem hafa vaxið um 2% frá áramótum. Grunnrekstur bankans styrkist og 16% aukning var á þóknanatekjum á milli ára,“ segir Birna Einarsdóttir bankastjóri í tilkynningu.

Hún segir að hagræðingarverkefni  hafi gengið vel, bankinn hafi haldið áfram að hagræða í útibúaneti og nýverið hafi verið tilkynnt um  sameiningu tveggja útibúa og breytingu á afgreiðslu bankans í Kringlunni í sjálfsafgreiðslu. „Raunlækkun á stjórnunarkostnaði var 7,4% á milli ára og kostnaðarhlutfallið var 55,1% sem er í takt við langtímaáætlanir bankans,“ segir Birna í tilkynningu.