*

föstudagur, 24. september 2021
Innlent 2. ágúst 2021 10:03

Átta milljarða niður­færsla Bakka­stakks

Bakkastakkur hefur fært virði breytanlegs skuldabréfs, útgefnu af PCC á Bakka, niður um 6 milljarða á tveimur árum.

Ritstjórn
Kísilver PPC á Bakka
Haraldur Jónasson

Bakkastakkur, félag um fjárfestingu lífeyrissjóða og Íslandsbanka í kísilveri PCC á Bakka við Húsavík, réðst í fjárhagslega endurskipulagningu í lok síðasta árs sem fólst í að eftirstöðvar skulda að fjárhæð 8,7 milljarðar króna voru felldar niður og er því ekki með neinar langtímaskuldir. Sem gagngjald tóku skuldabréfaeigendur við nýjum hlutum upp á 4,5 milljarða en eldra hlutafé, bókfært á 2,9 milljarða, var afskrifað að fullu.

Bakkastakkur færði 13,5% eignarhlut sinn í PCC alfarið niður árið 2019, en hann var áður skráður á 2,5 milljarða. Stærsta eign Bakkastakks liggur þó í breytanlegum víkjandi skuldabréfum útgefnum af PCC. Bókfært virði skuldabréfanna var fært niður um tvo milljarða á síðasta ári vegna gangvirðisbreytingar, þar sem Bakkastakkur samþykkti að gefa eftir vexti tímabundið sem hluta af endurskipulagningu fjárhags PCC.

„Gangvirðislækkunin byggir á verðmati sem tekur mið af erfiðleikum í rekstri kísilversins í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins,“ segir í ársreikningi félagsins en verksmiðju PCC á Bakka var lokað um mitt ár 2020 vegna aðstæðna á markaði og rekstrarerfiðleika“

Skuldabréfaeignin var metin á 10,5 milljarða í byrjun árs 2019 en var færð til bókar á 4,1 milljarð í árslok 2020. Eignir Bakkastakks hafa því alls verið færðar niður um átta milljarða króna á síðustu tveimur árum.

Í apríl síðastliðnum lágu fyrir drög að samkomulagi að fjárhagslegri endurskipulagningu og nýrri fjármögnun PCC á Bakka. Annar ofn verksmiðjunnar var gangsettur síðar í mánuðinum og sá seinni var gangsettur í byrjun júlí.

„Að koma verksmiðju PCC BakkiSilicon hf. í rekstur hefur verið krefjandi verkefni auk þess sem afurðaverð hafa verið lág undanfarin misseri. Við það bættist árið 2020 að COVID-19 faraldurinn hafði mikil áhrif á markaði með ýmsar hrávörur um allan heim. Á fyrstu mánuðum 2021 hefur orðið viðsnúningur og hrávörur hækkað töluvert, þ.m.t. kísilmálmur.“

Félagið segir þó að veruleg óvissa ríki um efnahagsleg áhrif faraldursins á félagið til lengri tíma og óljóst er hvernig þróunin á alþjóðlegum mörkuðum verður, þar sem verð á kísilmálmi mun skipta félaginu mestu máli.