Forsvarsmenn Knattspyrnusambands Íslands eru nú að fara yfir skýrslu þar sem hagvæmni nýs Laugardalsvallar er metin. Hagkvæmniathugunin var unnin af fyrirtækinu Borgarbrag í samvinnu við franska fyrirtækið Lagardère Sport og bandaríska fyrirtækið AEG. Bæði þessi fyrirtæki hafa miklu reynslu af uppbyggingu valla víðs vegar um heim.

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, segir að nú sé verið að fara yfir hana og gögn sem fylgi. Hann segir að hugsanlega verði skýrslan gerð opinber í þessum mánuði. Nú, þegar hagkvæmniathugunin liggi fyrir, þurfi KSÍ að meta hvort taka eigi næsta skref, sem sé að fara í hönnunarferli.

Áætlaður kostnaður við byggingu yfirbyggðs vallar er um 8 milljarðar króna. Gert er ráð fyrir árstekjum upp á 250 til 300 milljónir. Ef byggð verður upp önnur þjónusta samhliða, eins og verslanir, veitingastaðir eða hótel, aukast tekjurnar verulega og forsendur verkefnisins gjörbreytast. Formaður KSÍ segir aðeins tímaspursmál hvenær farið verði út í framkvæmdir.

Áherslur í byggingu leikvanga hafa breyst mikið á síðustu árum. Sífellt algengara er að á nýjum völlum séu til dæmis reknar verslanir, veitingastaðir og jafnvel hótel. Hugsunin með þessu er sú að auka nýtingu og tekjumöguleika dýrra mannvirkja.

„Ég hef allan tímann sagt að ef það á að ráðast í framkvæmdir í Laugardalnum þá þurfa mannivirkin að þjóna meiri tilgangi en bara í kringum knattspyrnu," segir Geir. „Það þarf að skapa meiri rekstrartekjur en fást eingöngu með knattspyrnuleikjum. Það er alveg ljóst.

Ég held að það sé algjörlega nauðsynlegt fyrir framþróun knattspyrnunnar í landinu og reyndar líka frjálsra íþrótta að fara í uppbyggingu í Laugardal. Ég held að það sé bara tímaspursmál hvenær það verður gert. Við hjá KSÍ teljum að það eigi að fjarlægja hlaupabrautina og byggja aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir annars staðar."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .