Sé miðað við þau úrræði sem í boði hafa verið frá 2008 hafði Íbúðalánasjóður afskrifað í byrjun febrúar 2012 rétt tæpa 8 milljarða kr. hjá 2.976 heimilum. Mestur hluti afskrifta var vegna 110% leiðar eða 7,2 milljarðar kr. Þetta kom fram í svari Guðbjartar Hannessonar, velferðarráðherra á Alþingi í gær.

Af þeim heimilum sem gengið hafa í gegnum 110% leiðina eru 24 heimili tvítalin annars staðar, átta hafa einnig fengið afskrift umfram söluverð og 16 fengið sértæka skuldaaðlögun. Í svari Guðbjartar kom fram að við afskrift krafna umfram söluverð sé útbúið glatað veð fyrir fjárhæð umfram söluverð fasteignar og hægt er að sækja um niðurfellingu þess að fimm árum liðnum. Ekki er hægt að sækja um lán að nýju fyrr en veðið er fellt niður. Úrræðið er hugsað til þess að liðka fyrir sölu yfirveðsettra eigna.