Fimm dómarar, tveir prófessorar og lögmaður mynda hóp átta umsækjenda um tvö laus embætti dómara við Hæstarétt Íslands. Stöðurnar tvær losna sökum þess að Þorgeir Örlygsson og Greta Baldursdóttir hafa óskað eftir lausn úr embætti. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins en umsóknarfrestur rann út í fyrradag.

Aðalsteinn E. Jónasson, dómari við Landsrétt, er meðal umsækjenda nú en hann sóttist einnig eftir skipan síðast þegar dómari var skipaður við Hæstarétt. Það var í maí en þá hreppti Sigurður Tómas Magnússon hnossið. Davíð Þór Björgvinsson, einnig dómari við Landsrétt, er einnig meðal umsækjenda nú en hann dró umsókn sína til baka síðast eftir að drög að áliti dómnefndar um hæfni umsækjenda lágu fyrir er Sigurður var skipaður. Aðrir umsækjendur þá voru landsréttardómararnir Jóhannes Sigurðsson og Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari.

Ása Ólafsdóttir, prófessor í samningarétti við Háskóla Íslands, og Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti við sama skóla, sækja um nú en þær voru báðar settar sem dómarar við Landsrétt í upphafi árs. Oddný Mjöll Arnardóttir og Þorgeir Ingi Njálsson, bæði dómarar við Landsrétt, eru einnig í hópi umsækjenda.

Ástríður Grímsdóttir, héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjaness, er eini héraðsdómarinn sem sækir um. Þá sækist lögmaðurinn Jóhannes Rúnar Jóhannsson eftir embættinu en hann sótti nýverið einnig eftir því að vera skipaður í Landsrétt. Dómnefnd um hæfni umsækjenda hefur ekki skilað áliti sínu vegna stöðunnar sem losnar þar.

Skipað verður í embættin tvö um leið og dómnefnd um hæfni umsækjenda hefur lokið störfum sínum. Fyrir í réttinum sitja þau Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.