Meirihluti stuðningsmanna allra flokka vill að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið, samkvæmt niðurstöðu nýrrar skoðanakönnunar Fréttablaðsins og Stöðvar 2.

Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að niðurstaðan bendir til þess að 81,6 prósent landsmanna vilja taka ákvörðun um málið í þjóðaratkvæðagreiðslu í stað þess að láta þingmönnum eftir að útkljá málið í þingsalnum. Um 18,4 prósent vilja láta þinginu eftir að ákveða örlög aðildarumsóknarinnar.

Í könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 sem gerð var í lok janúar sögðust 74,6 prósent vilja að atkvæðagreiðsla um framhald aðildarviðræðna verði haldin samhliða sveitarstjórnarkosningum í vor.

Samkvæmt niðurstöðunni vilja 66,2% sjálfstæðismanna að málið verði útkljáð í þjóðaratkvæðagreiðslu en 51% framsóknarmanna.