Fjármálaeftirlitið telur Attestor Capital LLP og tengdum aðila hæfa til að fara með virkan eignarhlut í Arion banka hf. sem nemur allt að 20%.

Við mat Fjármálaeftirlitsins á hæfi Attestor Capital LLP og tengdra aðila lagði stofnunin mat á hæfi írska fjárfestingafélagsins Trinity Investments DAC til að fara með virkan eignarhlut í Arion banka hf. með beinni hlutdeild. Trinity Investments DAC fer nú með um 9,99% hlut í Arion banka hf. auk þess sem félagið fer með um 4,7% hlut í Kaupþingi ehf., eða sem nemur um 2,7% óbeinum hlut í bankanum.

Matið byggði m.a. á upplýsingum sem stofnunin aflaði frá erlendum fjármálaeftirlitum, þ.m.t. Evrópska seðlabankanum en Attestor Capital LLP og tengdir aðilar hafa verið metnir hæfir af bankanum til að fara með virkan eignarhlut í austurrískri lánastofnun að því er kemur fram í frétt FME.