Í svari Dómsmálaráðherra, Sigríðar Ásthildar Andersen, við fyrirspurn Ólafs Ísleifssonar þingflokksformanns Flokks fólksins kemur fram að heildarkostnaður vegna hælisleitenda hér á landi hefur aukist ríflega 14 falt á fimm ára tímabili.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá á sínum tíma stytti hún vinnslutíma hælisumsókna niður í þrjá daga eftir að hafa tekið við dómsmálaráðuneytinu en hún hefur sagt að langur meðferðartími hafi spurst út og leitt til fleiri umsókna um hæli hér á landi. Fækkaði umsóknum í kjölfarið um 40% .

Námu heildarútgjöld ríkissjóðs vegna vinnslu og meðferðar umsókn þeirra sem koma hingað til lands og sækja um hæli, auk uppihalds og húsnæðis samtals 3.437 milljónum króna á síðasta ári. Sagt var frá því síðasta sumar að tekjur Rauða krossins jukust í 2,5 milljarða árið 2016 vegna þjónustusamnings við ríkið vegna hælisleitenda en það ár voru umsóknirnar 1.132.

Í þeirri tölu eru meðtaldar greiðslur til sveitarfélaga vegna þjónustu til þeirra sem sótt hafa um hæli hér á landi en ekki önnur fjárútlát sveitarfélaganna. Heildargreiðslunnar árið 2012 voru þó ekki nema 240 milljónir króna, en síðan hafa þær aukist í stökkum.

  • 2013: 468 milljónir
  • 2014: 506 milljónir
  • 2015: 715 milljónir
  • 2016: 1.182 milljónir
  • 2017: 3.437 milljónir

Árið 2015 fengu tvær albanskar fjölskyldur sem sótt höfðu um hæli hér á landi og verið vísað úr landi íslenskan ríkisborgararétt eftir mikla fjölmiðlaumfjöllun. Í frétt RÚV um málefni hælisleitenda frá Albaníu og Makedóníu er bent á að Björn Bjarnason fyrrverandi dómsmálaráðherra hafi sagt að sú ákvörðun hafi leitt til þess að straumur flóttafólks hafi aukist mikið hingað til lands.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi utanríkisráðherra segir þar jafnframt að forgangsraða ætti í þágu flóttamanna frá átakasvæðum. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um telja um 70% Íslendinga hæfilega marga eða of marga flóttamenn fá hæli hér á landi. Í desember fengu þeir 518 umsækjendur um hæli sem staðsettir eru hér á landi desemberuppbót.