Greiningardeild Kaupþings veltir upp þeirri spurningu í Hálffimm fréttum í gær hvort Bakkavör hefði átt að gefa út afkomuviðvörun áður en uppgjör fyrsta fjórðungs var birt.

Þar segir: „Þótt Bakkavör hafi ekki gefið út markmið um lykiltölur í rekstri félagsins er vert að velta því upp hvort ekki hafi verið tilefni til þess að Bakkavör gæfi frá sér afkomuviðvörun í aðdraganda uppgjörs enda afkoma félagsins verulega undir væntingum markaðarins og greiningaraðila.“

Tap Bakkavarar á fjórðungnum nam tæpum 13 milljónum punda, borið saman við meðalspá greiningardeilda upp á 5 milljóna punda hagnað.

Munaði mest um gjaldfærslu vegna skiptasamnings um hlutabréf í írska matvælafyrirtækinu Greencore upp á 15,8 milljónir punda.

Gengi bréfa í Bakkavör lækkaði um 8% í gær og hefur sjaldan lækkað jafn skarpt á einum degi.

Í Morgunkorni Glitnis segir að gjaldfærslan komi nokkuð á óvart. „[Hún] veldur því að niðurstaða uppgjörsins er langt frá því sem búist hafði verið við. Án áhrifa virðisbreytingar skiptasamnings nemur hagnaður til hlutahafa 0,7 m. punda.“

Í Vegvísi Landsbankans segir: „Þrátt fyrir erfitt tímabil erum við áfram bjartsýn á rekstur Bakkavarar til lengri tíma litið. Ekki síst þar sem markaðurinn fyrir fersk tilbúin matvæli vex hratt, sérstaklega í Asíu, á meginlandi Evrópu og í Norður-Ameríku.“