„Þegar ég sagðist myndi styðja þjóðaratkvæðagreiðslu, féll sú ákvörðun vægast sagt í mjög grýttan jarðveg.  Var mér þá einfaldlega hótað  brottrekstri úr ríkisstjórn af formönnum beggja stjórnarflokkanna.  Eða eins og formaður Vg orðaði það, þá var mér ætlað að ganga á fund forsætisráðherra,“ skrifar Jón Bjarnason, fyrrverandi þingmaður VG og ráðherra í ríkisstjórn Samfylkingar og VG.

Jón minnist í bloggfærslu í dag vordaganna á Alþingi 2009 þegar umsóknin umaðild að ESB var á dagskrá. Stemningin, að hans sögn, varð þrungin þegar fram kom í fréttum að tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu nyti stuðnings hóps þingmanna  Vinstri grænna og gæti orðið samþykkt. Hann segir öll herbergi þinghússins hafa fyllst af reyk.

Jón skrifar:

„Ögmundur Jónasson,  sem  lagði mikið  í sölurnar fyrir myndun fyrrverandi  ríkisstjórnar, stóð þá upp og tilkynnti að  ef Jón Bjarnason ætti að ganga með höfuð sitt á fati til forsætisráðherra þá myndi Heilbrigðisráðherra ganga sömu leið. Alkunna var að forsætisráðherra tók einstaka þingmenn undir vegg  fyrir atkvæðagreiðsluna eða  gekk á milli sæta í þingsal.  Var þó búið að samþykkja áður  að umsókn að ESB væri ekki ríkisstjórnarmál og hver og einn þingmaður talaði fyrir og greiddi atkvæði í þeim málum samkvæmt sannfæringu sinni.“

Jón segir dapurt að horfa á þingmenn VG halda hverja ræðuna nú á fætur annarri um áframhald  aðlögunarsamninga við ESB.

„...viðræður, sem þeir vita að voru löngu komnir í strand.  Kröfur ESB um forræði í sjávarútvegsmálum, landbúnaðarmálum  sem og  samningum við önnur ríki einar sér ganga þvert á þá fyrirvara sem Alþingi setti 2009,“ skrifar hann.