Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir Sigmund hafa átt að stíga skrefið til fulls og segja af sér þingmennsku. Í kjölfarið hefði hann haft tæki til að koma aftur tvíefldur. Þetta kemur fram í viðtali í Fréttablaðinu í dag.

Það sé síðan kjósenda og stuðningsmanna flokksins að ákveða hvort hann verði framtíðarformaður flokksins. „Við erum enn stödd í hringiðunni, það er havarí á þinginu og annars staðar. Við eigum eftir að fá upplýsingar og bíðum eftir því. Þegar frá dregur vonast ég til að menn geti rætt þessa hluti á málefnalegan hátt og menn fái að njóta sannmælis. Það eiga allir rétt á því.“

Höskuldur segir alla Framsóknarmenn átta sig á því að flokkurinn er í erfiðri stöðu. Þeir hafi samt ekki snúið baki við Sigmundi. „Það held ég ekki. Við höfum stutt hann. Ég hef stutt hann í gegnum tíðina. Það er kjósenda okkar að vega og meta hvort þeir treysta stjórnmálamönnum, það er flokksmanna að vega og meta hvort þeir treysti forystunni.“

Höskuldur telur skaða hafa orðið á ímynd landsins og bendir máli sínu til stuðnings á fall hlutabréfa og frestun funda. „Trúverðugleiki landsins hefur beðið hnekk. Við verðum að endurvekja það traust, sem stöndum í pólitík.“

Höskuldur telur þó ekki að Bjarni Benediktsson þurfi að víkja til að endurvekja það traust. Hann ítrekar hann verði eins og aðrir að standa fyrir framan sína kjósendur og flokksmemm en finnst hann þó hafa gert ágætlega grein fyrir sínum málum. Það sé ekkert í hans huga sem sé ósvarað eða óskýrt. Hann segist treysti honum og sé reiðubúinn að starfa með honum og Ólöfu áfram í ríkisstjórn þangað til boðað verður til kosninga.