"Á árunum 1997 til 2000 fjárfestum við í ýmsum hugbúnaðar- og sprotafyrirtækjum sem sum hver hafa lagt upp laupanna en við gengið út úr öðrum með tapi," sagði Frosti Bergsson, stjórnarformaður Opinna kerfa, þegar hann var spurður út í gagnrýni greiningardeildar Landsbankans á niðurfærslu hlutabréfaeignar félagsins eins og hún birtist í hálfs árs uppgjöri félagsins núna.

Að sögn Frosta er ýtarlegur listi yfir þau félög sem þeir hafa fjárfest í ársreikningi félagsins. Það hafi verið stefna félagsins að losa sig út úr sem flestum félögum þar sem um er að ræða litla eignarhluta en hlúa að okkar dótturfélögum.

Menn hafa góða aðstöðu til að fylgjast með breytingum á hlutabréfaeign félagsins. "Það þarf að finna rétta tímapunkt því eins og markaðurinn hefur verið þá hafa ekki verið margir kaupendur að litlum sprotafyrirtækjum á Íslandi."