„Nýlega birtist auglýsing frá Símanum sem byggð var á merkum atburðum kristinnar trúar. Mönnum fannst strax ægilega ósmekklegt af Símanum að ætla að græða peninga á kristninni,“ sagði Ragnhildur Sverrisdóttir, rithöfundur og blaðamaður, og bætti svo við í kaldhæðnistón „enda hefur það nú aldrei gerst áður.“

Ragnhildur velti því upp í máli sínu hvort það sé ekki hámark rétthugsunarinnar þegar má ekki einu sinni gera grín að Júdasi, og spurði hvort menn séu búnir að komast að þeirri niðurstöðu að hann hafi átt erfitt í æsku?

„Biskupinn sagði að menn ættu að velta því fyrir sér hvort ekkert sé heilagt lengur. Ég spyr á móti, eigum við ekki að velta því fyrir okkur hvort við viljum að allt sé heilagt?

Pólitísk rétthugsun getur leitt okkur í ógöngur. Blessunarlega höfum við flestar hyggjuvitið til að sjá hvar réttlætið endar og hvar órökrétt rétthugsun tekur við,“ sagði Ragnhildur.

Svipaðra viðhorfa gætti í ræðu Svanhildar Hólm Valsdóttur, ritstjóra Íslands í dag, sem kallaði eftir því að hlutirnir séu kallaðir réttum nöfnum í fjölmiðlum, en ekki sé farið í kring um bannorð á borð við „feitur“ og „blankur“ með furðulegum ambögum.