Guðmundur Hauksson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri SPRON, segist hafa átt um tífalt meira af hlutabréfum í sparisjóðnum en hlutabréfum í Exista, þegar SPRON veitti Exista tveggja milljarða króna lána sem sérstakur saksóknari hefur ákært fyrir. Aðalmeðferð málsins stendur nú yfir í Héraðsdómi Reykjavíkur, en þetta kom fram í skýrslugjöf Guðmundar fyrir dómi sem RÚV greinir frá .

Sérstakur saksóknari ákærði einnig stjórnarmennina Jóhann Ásgeir Baldurs, Ara Bergmann Einarsson, Margréti Guðmundsdóttur og Rannveigu Rist. Þau eru öll sökuð um að hafa misnotað aðstöðu sína hjá sjóðnum og stefnt fé hans í hættu með því að fara út fyrir heimildir þegar félagið lánaði Exista tvo milljarða króna.

Guðmundur sat sjálfur í stjórn Exista og átti hlut í félaginu, en við yfirheyrslu í morgun sagði hann hins vegar að hann hefði átt um tíu sinni meiri hlutabréf í sparisjóðnum og hagsmunir hans hefðu því fyrst og fremst verið bundnir honum. Hafnar hann því að menn hafi misnotað umboð sitt og segist telja að málið hafi fengið mjög eðlilegan framgang.