Samanlögð fjármunaeign íslenskra fjárfesta Í Danmörku var um 60 milljarðar króna í lok ársins 2004. Það er svipuð upphæð og heildarfjárfesting í nýbyggingum á Íslandi á sama tíma.

Þetta kom fram í ávarpi Svavars Gestssonar. sendiherra Íslands í Danmörku, þegar hann ávarpaði ráðstefnugesti á ræðismannaráðstefnu í Danmörku nýlega. Kom þetta fram í Stiklum , vefriti viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.

Svavar fjallaði meðal annars um samskipti Íslands og Danmerkur að fornu og nýju. Sendiherrann fjallaði almennt um samstarf þjóðanna á sviði menningar og viðskipta og gríðarleg umsvif íslenskra fjárfesta í Danmörku síðastliðin tvö ár.

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra flutti erindi um þróun íslensks efnahagslífs þar sem hann skýrði hvernig styrkar stoðir þess hafa gert fyrirtækjum kleift að taka virkan þátt í þeirri hnattvæðingu sem nú á sér stað. Árni sagði mikilvægt að líta um öxl til þess að skýra velgengni Íslands á alþjóðamarkaði, allt aftur til landgrunnslaganna frá árinu 1948 og síðar útfærslu landhelginnar í 200 mílur.

Þá nefndi hann einnig nýtingu fallvatnanna og þróun og uppbyggingu í orkufrekum iðnaði. Árni sagði þessa tvo þætti grunninn að efnahagslegu sjálfstæði og velferð íslensku þjóðarinnar. Ráðherrann nefndi einnig aukið
frjálsræði í íslensku atvinnulífi, aðild Íslands að EES, einkavæðingu ríkisbankanna og minni skattaálögur á fyrirtæki og einstaklinga.