Morten Lund og viðskiptafélagar hans áttu að fá 139 milljónir danskra króna fyrir ráðgjafarstörf í þágu Mecon Group, evrópska dagblaðaútgáfufélagsins, samkvæmt drögum að samningi sem Jótlandspósturinn hefur undir höndum. Forsenda samningsins var þó að útgáfu Nyhedsavisen yrði hætt.

Danskir fjölmiðlar hafa í dag og í gær greint frá þeim sögusögnum að David Montgomery, aðaleigandi Mecon Group, sem á m.a. danska útgáfufélagið Berlingske, hafi borgað Lund fyrir að leggja niður Nyhedsavisen. Sjálfur hefur Montgomery sem og talsmaður Mecon Group vísað öllum slíkum fullyrðingum á bug.

Fyrrum starfsmenn Nyhedsavisen, Simon Andersen og Morten Nissen Nielsen, hafa á sama tíma stigið fram og upplýst að  Morten Lund hafi fyrr í sumar sagt þeim frá því að Montgomery hafi boðið honum 200 milljónir danskra króna fyrir að leggja niður blaðið. Lund hafi þó sannfært þá um að hann myndi ekki taka boðinu.

Fimm síðna samningur

Jótlandspósturinn fylgir málinu eftir og segist nú hafa undir höndum drög að samningi, sem ættuð eru frá skrifstofu 365 Media Scandinavia. Í drögunum, sem eru upp á fjórar  til fimm síður, er kveðið á um ráðgjafarstörf fyrir Mecon Group. Í lok samningins er gert ráð fyrir undirskrift tveggja aðila: David Montgomery, fyrir hönd Mecon Group og Mortens Söndergard Pedersen, fyrir hönd breska félagsins Comet Media Limited.

Sá síðarnefndi er, samkvæmt Jótlandspóstinum, vinur Mortens Lund. Hann var sömuleiðis einn þeirra sem hafði gefið vilyrði fyrir því að setja meiri peninga inn í Nyhedsavisen áður en það var lagt niður  í lok ágúst og lýst gjaldþrota.

Einn þriðji átti að greiðast stuttu eftir undirskrift samningsins

Í drögunum er gert ráð fyrir því að Comet Media sinni fjölmiðlaráðgjöf fyrir Mecon Group og fái fyrir það 139 milljónir danskra króna. Upphæðinni er deilt niður á tvö ár. Þriðjungur hennar átti þó að greiða átta dögum eftir undirskrift samningsins. Forsenda samningsins var, sem fyrr segir, að Nyhedsavisen yrði lagt niður.

Dagsetning samningsins er 28. ágúst 2008 en þann dag segja danskir fjölmiðlar að Lund og Montgomery hafi átt margra klukkustunda fund á skrifstofu móðurfélags Nyhedsavisen, 365 Media Scandinavia, við Gammel Strand í Kaupmannahöfn.

Þremur dögum síðar tilkynnti Lund að hann hefði ákveðið að hætta útgáfu blaðsins. Lund hefur ekki viljað tjá sig um þetta mál við danska fjölmiðla í dag.