Rekstrarreikningur Borgarahreyfingarinnar árið 2009 var ekki umsvifamikill og enginn samanburður er á milli ára, enda hreyfingin stofnuð það sama ár.

Athygli vekur þó að eigið fé flokksins var neikvætt um 6,7 m.kr. í lok árs 2009 og á sama tíma námu skuldir hreyfingarinnar einnig um 6,7 m.kr. Neikvætt eigið fé fer hönd í hönd við taprekstur hreyfingarinnar á árinu.

Fastafjármunir eru á núlli í efnahagsreikningi og veltufjármunir voru í árslok 2009 heilar 18.702 kr.

Þetta kom fram í úttekt Viðskiptablaðsins á fjármálum stjórnmálaflokkanna sem birtist sl. fimmtudag.

Borgarahreyfingin gerði athugasemd við fréttir blaðsins af rekstri hreyfingarinnar og er hún svohljóðandi:

„Borgarahreyfingin stendur traustum fótum fjárhagslega en staða á sjóðum XO [Borgarahreyfingarinnar] var um áramót 2010 – 2011 jákvæð um kr. 4.826.269,-. Skuldastaða var kr. 0,-.

Þó svo að frétt sú er hér er vísað til sé efnislega rétt þá teljum við að í veðri sé látið vaka að Borgarahreyfingin SÉ skuldum vafin, en slíkt er auðvitað alrangt. Stöðu í lok árs 2009 ber að sjálfsögðu að skoða í því samhengi að Borgarahreyfingin var stofnuð í febrúar á því ári og að kostnaður við kosningar sem tryggðu 4 aðilum þingsæti losaði 7 milljónir, eða um kr. 1.750.000,- á hvern þeirra þingmanna sem náðu kjöri á vegum XO.

Þrátt fyrir að þeir þingmenn hafi nú stofnað eigin flokk eða gengið í aðra, þá varð að standa við þær skuldbindingar sem urðu til við kosningarnar 2009 og var það gert. Við allar slíkar þessar skuldbindingar hefur verið staðið og reikningar vegna kosninga 2009 allir greiddir. Áætlanir fyrir árið 2011 gera ráð fyrir 25 m.kr. tekjum og er Borgarahreyfingin því ennþá rekin sem vel fjármagnað og skipulagt stjórnmálaafl.“