„Miðað við hvernig fór gerðum við augljóslega fleira rangt en rétt,“  segir Liv Bergþórsdóttir, fyrrum stjórnarformaður Wow, í viðtali í hlaðvarpsþættinum Alfa. „Þetta er ekki eingöngu spurning um heppni eða óheppni. Við áttum að sækja fjármagn mikið fyrr.“

Liv segir það mistök að ekki hafi verið sótt fjármagn á þeim árum sem rekstur Wow gekk vel. Skortur á fjármagni hafi þýtt að lítið borð var fyrir báru þegar félagið lenti í erfiðleikum.

„Við gerðum það ekki og það varð okkur að falli á endanum,” segir Liv.

„Þetta voru ævintýraleg sjö ár og áhættusæknin í stefnu félagsins endurspeglaði áhættusækni eigandans og þarna var einn eigandi. Það þarf stórhuga fólk til að gera stóra hluti eins og Skúla. Þú þarft að vera smá crazy til þess að takast á við svona verkefni.

En þrátt fyrir allt vona ég að þrátt fyrir að fleira hafi verið gert rangt en rétt mun fólk sjá að við gerðum fleira gott en vont. Að reynslan og þekkingin sem varð til á  þessum sjö árum muni skila sér í framtíðinni,” segir Liv meðal annars í viðtalinu.