Langtímaleitni á vinnimarkaði bendir til þess að atvinnuástandið sé að versna fremur en að batna og að gera megi ráð fyrir slæmu ástandi þegar líða tekur á veturinn. Er þetta meðal þess sem kemur fram í grein, sem Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, skrifar á vefsíðu sambandsins.

Þar segir hann að þrátt fyrir að opinberar atvinnuleysistölur bendi til þess að atvinnuleysi fari minnkandi sé raunin önnur. Margir skrái sig ekki atvinnulausa, m.a. vegna þess að þeir eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Þessi hópur fólks skekki tölur Vinnumálastofnunar. Vísar Gylfi til talna Hagstofunnar um atvinnuþátttöku og atvinnuleysi. Þær sýni að störfum fækkaði umtalsvert í hruninu, eða úr 180.000 í 167.000. Frá þeim tíma hafi fjöldi starfandi Íslendinga rokkað um eitt eða tvö þúsund, hafi tekið aðeins kipp upp á við sumarið 2011 en fallið aftur um haustið. Nú sé fjöldi starfandi svipaður og í ársbyrjun 2009.

Samkvæmt þessum tölum segir Gylfi ljóst að störfum á Íslandi sé ekki að fjölga né er að draga úr atvinnuleysi svo nokkru nemur. „Það er því algerlega ótímabært að lýsa yfir einhverjum sigrum hvað þetta varðar. Það er einnig vandséð hvernig hægt er að líta á slíkt sem vitnisburð um árangursríka efnahagsstjórn – sérstaklega þegar um er að ræða ríkisstjórn sem kennir sig við jöfnuð og jafnrétti – en hitt er öruggt að ef stjórnvöld breyta ekki um kúrs í þessum málum er nokkuð ljóst hver viðbrögð kjósenda verða í vor.“