Öll starfsemi Bílaumboðsins Öskju ehf., umboðs- og þjónustuaðila Mercedes-Benz á Íslandi, verður komin undir eitt þak í dag, mánudaginn 24. nóvember að því er kemur fram í tilkynningu félagsins.

Áður hafði fólksbíladeild fyrirtækisins verið flutt í nýja húsnæðið á Krókhálsi 11 og frá og með mánudeginum verður atvinnubíladeildin þar einnig til húsa. Í tilkynningu er haft eftir Leif Arnari Leifssyni, framkvæmdastjóra Öskju, að þetta verði til mikilla hagsbóta fyrir starfsemina og viðskiptavini sem nú eiga greiðan aðgang að þjónustu Öskju á einum stað.

“Við verðum með alla þjónustuna á einum stað í miklu betra rými en áður,” segir Leifur í tilkynningu. Nýja húsnæðið er samtals um 5.000 fermetrar og öll vinnuaðstaða og aðbúnaður eins og best verður á kosið.   “Við erum hér miðsvæðis en vorum í útjaðri höfuðborgarsvæðisins áður með atvinnubílaþjónustuna. Hér erum við í alfaraleið atvinnubíla á gatnamótum Suðurlands- og Vesturlandsvegar og bjóðum upp á alhliða þjónustu fyrir sendibíla, vörubíla og rútur.”

Fólksbíladeild Mercedes-Benz ásamt KIA á Íslandi var flutt af Laugaveginum í nýja húsnæðið á Krókhálsi í septemberbyrjun.   Þessi tvö vörumerki njóta þess í dag að búa að stórum og björtum sýningarsal auk þess sem nú býðst afbragðs sýningaraðstaða fyrir Mercedes-Benz atvinnubíla.

“Við getum núna í fyrsta skipti boðið upp á góða sýningaraðstöðu fyrir Mercedes-Benz sendibíla innandyra og gott sýningarrými fyrir alla atvinnubíla utandyra,” segir Leifur.

Með flutningnum færist líka öll varahlutaþjónusta á einn stað en hún var á tveimur stöðum áður. Einn sameiginlegur varahlutalager er nú fyrir fólksbíla og atvinnubíla.

Rúmlega 50 manns vinna hjá Öskju. Í flota Mercedes-Benz á Íslandi eru um 2.500 atvinnubílar og tæplega 5.000 fólksbílar.