Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, birti í gærkvöldi mynd á Facebook síðu sinni frá hvalaskoðun við Húsavík. Við myndina skrifaði hún svo eftirfarandi texta:

„Stórkostlega mikilvæg atvinnugrein fyrir íslenskt þjóðarbú. Mun mikilvægari en hvalveiðar sem standa okkur fyrir þrifum; því er nauðsynlegt að mæta og horfast í augu við.“

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, virðist hins vegar ekki ánægð með þessa framsetningu flokkssystur sinnar ef marka má stöðuuppfærslu hennar á Facebook . Þar segir hún meðal annars að atvinnufrelsi sé ekki eitthvað sem reiknað er út í Excel.

„Hvar endar það eiginlega ef við ætlum að svipta menn í tilteknum atvinnugreinum sjálfu atvinnufrelsinu með þeim rökum að aðrar atvinnugreinar skili mögulega meiru í „þjóðarbúið“ eða vegna þess að einhverjir útlendingar hafi ranghugmyndir um atvinnugreinina? Atvinnufrelsi er ekki eitthvað sem menn reikna út í Excel heldur mannréttindi,“ skrifar Sigríður.