Heildarframboð fullbúins atvinnuhúsnæðis á Íslandi er um 12,6 milljónir fermetrar samkvæmt Þjóðskrá Íslands. Þar eru talin með álver, fiskiðjuver og útihús bænda.

Raunverð á atvinnuhúsnæðismarkaði er nú í lágmarki. Framtíðarhorfur fara þó batnandi og má álykta að fasteignaverð ætti að fara hækkandi á næstu misserum. Þetta kemur fram í skýrslu um atvinnuhúsnæðismarkaðinn sem unnin var fyrir Reginn ehf. vegna hlutafjárútboðs félagsins.

Magnús Árni Skúlason, einn skýrsluhöfunda, bendir á að mikið hafi verið byggt af atvinnuhúsnæði fyrir bankahrun, og þá sérstaklega af skrifstofuhúsnæði. Samkvæmt könnun sem gerð var í október 2010 voru 156 þúsund fermetrar skrifstofuhúsnæðis lausir. Nú eru hins vegar um 149 þúsund fermetrar lausir, eða um 19% af öllu skrifstofuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu.

„Eðli málsins samkvæmt fer minnkandi atvinnuleysi saman við aukna notkun atvinnuhúsnæðis,“ segir Magnús Árni og er bjartsýnn á framhaldið. Hann ítrekar þó að óstöðugleiki og óvissa í efnahagslífinu hafi áfram lykiláhrif. Lagaleg og stjórnmálaleg áhætta, sem og áætlun um afnám gjaldeyrishafta, geti því einnig sett strik í reikninginn. „Það má til dæmis benda á að hækkun skatta hefur komið niður á rekstrarumhverfi fyrirtækja,“ segir Magnús.

Í skýrslunni er bent á að byggingaþörf hafi undanfarið verið í lágmarki og hafi því vaknað spurningar um hvort verð nýbygginga endurspegli byggingakostnað. Standist sú forsenda að byggingakostnaður sé hærri en fasteignaverð á ákveðnum eignaflokkum ættu kauptækifæri að myndast um þessar mundir. Byggingafyrirtækin halda þá að sér höndum þar til fasteignaverð hækkar og hagnaður myndast í atvinnugreininni á ný. Magnús bendir þó á að batamerki sé að verktakar hafa undanfarið verið að kaupa lóðir undir íbúðabyggðir.

Nánar er fjallað um stöðuna á atvinnuhúsnæðismarkaði í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.