Skráð atvinnuleysi í apríl 2011 var 8,1% eftir að hafa verið 8,6% í mars. Að meðaltali voru 13.262 manns atvinnulausir í apríl samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar. Stofnunin áætlar að atvinnuleysið í maí 2011 minnki enn og verði á bilinu 7,4 % til 7,8 %.

Alls voru 14.101 manns atvinnulausir í lok apríl.   Þeir sem voru atvinnulausir að fullu voru hins vegar 11.806. Af þeim voru 3.326 í einhvers konar úrræðum á vegum Vinnumálastofnunar, auk þess sem mikill fjöldi fer í ráðgjafarviðtöl, á kynningarfundi og í vinnumiðlun að því er fram kemur í umfjöllun Vinnumálastofnunar um stöðuna á vinnumarkaði.

Atvinnuneylsi í apríl 2009 til apríl 2011 (Heimild: Vinnumálastofnun)
Atvinnuneylsi í apríl 2009 til apríl 2011 (Heimild: Vinnumálastofnun)
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Fækkun atvinnulausra í lok aprílmánaðar frá lokum mars nam 764 en 587 færri karlar voru á skrá og 177 færri konur m.v. marslok. Á landsbyggðinni fækkaði um 333 og um 431 á höfuðborgarsvæðinu. Fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir lengur en 6 mánuði er nú 8.348 og fjölgar um 159  frá lokum mars og er um 59% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá í lok apríl .  Þeim sem verið hafa atvinnulausir í meira en eitt ár fækkar úr 4.837 í lok mars í  4.801 í lok apríl.

Alls voru 2.523 á aldrinum 16‐24 ára atvinnulausir í lok apríl en 2.741 í lok mars eða um 18% allra atvinnulausra í apríl og fækkar um 218 frá því í mars. Í apríl 2010 var fjöldi atvinnulausra ungmenna 3.024.

Alls voru 348 laus störf hjá vinnumiðlunum í lok apríl sem er 131 störfum fleiri en í mars, þegar þau voru 217.  Flest laus störf eru í þjónustu og sölu og afgreiðslu eða alls 131.