Það dró úr atvinnuleysi milli mánaða og mældist það 2,6% í júní. Atvinnulausum fækkaði um 400 frá í maí eða um 0,3%. Að meðaltali voru 2.086 karlar á atvinnuleysisskrá (2,1%) en 2.671 kona (3,2%). Þetta kemur fram í nýbirtu yfirliti Vinnumálastofnunar um atvinnuástand í júní.

Atvinnuleysi mældist 2,9% á höfuðborgarsvæðinu og fækkaði þar að meðaltali um 151. Á landsbyggðinni fækkaði atvinnulausum um 249 frá maí og var atvinnuleysi þar 2,1%. Mest var atvinnuleysið á Suðurnesjum, 3,1%. Minnst var atvinnuleysið á Norðurlandi vestra, 1,2%, og 1,5% á Austurlandi.

Atvinnuleysi ungra jafnt almennu atvinnuleysi

Athygli er vakin á því að skráð atvinnuleysi 18-24 ára reiknast jafnt almennu atvinnuleysi, eða 2,6% miðað við áætlaðan mannafla á þeim aldri. Venjulega mælist atvinnuleysi meðal ungra mun hærra. Fækkaði atvinnulausum ungmennum um 108 milli mánaða frá 845 í maí niður í 740 í júní.