Atvinnuleysi mældist 3,1% í febrúar, samanborið við 2,4% í febrúar í fyrra, og atvinnulausir voru að meðaltali 5.690 í mánuðinum og fjölgaði um rétt tæpan þriðjung milli ára. Þetta kemur fram í frétt á vef Vinnumálastofnunar .

Atvinnuleysi skiptist nánast jafnt hlutfallslega milli kynja. Atvinnulausir karlmenn voru um fimmtungi fleiri, en fleiri karlar eru á vinnumarkaði, svo atvinnuleysi þeirra mælist 0,1% lægra en kvenna.

Atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara var rúmlega tvöfalt landshlutfallið, eða 6,3%, og 36% atvinnulausra í febrúar, eða tæpir 2.200 manns, voru erlendir ríkisborgarar.