Skráð atvinnuleysi var 3,7% í apríl og hækkaði um hálft prósentustig milli mánaða, og hefur ekki verið hærra í 5 ár.

Vinnumálastofnun, sem birti tölurnar á heimasíðu sinni , segir áhrifa gjaldþrots Wow air „gæta verulega“ í tölum aprílmánaðar.

Um 6.800 manns voru á atvinnuleysisskrá í apríl, samanborið við tæpa 6.000 í mars, sem er rúm 14% fjölgun milli mánaða.

Stofnunin gerir ráð fyrir að skráð atvinnuleysi muni dragast saman á ný í maí vegna árstíðasveiflu og verði á bilinu 3,4-3,6%. 1.245 einstaklingar tóku þátt í úrræðum eða starfsþjálfunarverkefnum í apríl, en af þeim fóru flestir, rúmur þriðjungur, í ýmisskonar grunnúrræði.

3.733 karlar og 3.070 konur voru að jafnaði atvinnulaus í apríl, sem gerir 3,6% atvinnuleysi meðal karla og 3,8% meðal kvenna. Atvinnuleysi hækkaði um 0,4 prósentustig milli mánaða hjá körlum, en 0,5 hjá konum.