Samkvæmt skráningu Vinnumálastofnunnar voru í lok gærdagsins 6.245 manns atvinnulausir  á landinu í gær.  Samkvæmt þessu hefur atvinnulausum fjölgað um 2.278 í nóvember en í lok síðasta mánaðar voru 3.967 skráðir atvinnulausir.

Í Morgunkorni Glitnis segir að meðaltali hafi 108 manns skráð sig á atvinnuleysisskrá hvern einasta dag mánaðarins. Frá því að kreppan skall á í lok september hefur atvinnulausum fjölgað um 3.725 en í lok september voru 2.520 skráðir atvinnulausir.

Útlendingum sem starfandi eru á íslenskum vinnumarkaði hefur fækkað umtalsvert undanfarið. Áætlar Vinnumálastofnun að fækkunin nemi um 5-6 þúsund frá því í júlí á þessu ári. Ljóst er að uppsagnir fyrirtækja á vinnuafli eru því mun meiri en sést í atvinnuleysistölum.

Samkvæmt spá Seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins  verður atvinnuleysi í kringum 6% á næsta ári en Seðlabankinn gerir ráð fyrir að atvinnuleysi verði 8% árið 2010.