Atvinnuleysi á evrusvæðinu mældist 11,6% í maí, samkvæmt nýjum tölum frá Eurostat , hagstofu Evrópusambandsins. Ef öll Evrópusambandsríkin 28 eru tekin með í reikninginn var atvinnuleysið heldur lægra, eða 10,3%. Atvinnuleysi á evrusvæðinu hefur lækkað um 0,4 prósentustig frá sama mánuði í fyrra.

Samkvæmt tölum Eurostat voru 18,5 milljónir einstaklinga á evrusvæðinu án atvinnu í maí. Það eru 28 þúsund færri en í mánuðinum á undan. Atvinnulausum hefur fækkað um 636 þúsund á evrusvæðinu milli ára. Atvinnuleysið mælist minnst í Austurríki, Þýskalandi og Möltu en mest á Spáni og Grikklandi.

3,4 milljónir ungmenna (undir 25 ára) á evrusvæðinu voru án atvinnu í maí.  Það er fækkun um 205 þúsund milli ára. Atvinnuleysi meðal ungs fólks mældist 23,3%.