*

laugardagur, 18. janúar 2020
Innlent 22. mars 2018 09:46

Atvinnuleysi 2,4% í febrúar

Launavísitalan hækkaði um 0,4% í febrúar en síðustu 12 mánuði hefur kaupmáttur launa aukist um 4,8%.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Í febrúar voru 4.800 manns hér á landi án vinnu og í atvinnuleit, af um 198.300 manns á aldursbilinu 16-74 sem voru á vinnumarkaði samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Af þeim sem eru á vinnumarkaði, voru 193.500 starfandi, eða 78,2% af íbúum landsins en hlutfall atvinnulausra er þá 2,4% en atvinnuþátttakan er þá 80,1%.

Jafnframt hækkaði launavísitalan um 0,4% í febrúar en síðustu 12 mánuði hefur hún hækkað um 7,2%. Kaupmáttur launa hækkaði um 0,2% í febrúar en síðustu 12 mánuði hefur vísitala kaupmáttar hækkað um 4,8%.

Frá því í febrúar á síðasta ári hefur fjölgað um 900 manns á vinnumarkaði, en hlutfall þess af mannfjölda hefur hins vegar lækkað um 2,7 prósentustig. Jókst fjöldi starfandi í heild um 2.200 manns á milli ára, en þrátt fyrir fjölgunina lækkaði hlutfall þeirra af mannfjölda um 2,2 prósentustig.

Atvinnulausir eru nú 1.200 færri en á sama tíma fyrir ári, en hlutfall þeirra er 0,6 prósentustigum lægra en fyrir ári. Alls voru 49.100 manns utan vinnumarkaðar, sem er fjölgun um 6.100 manns frá því í febrúar árið 2017 þegar þeir voru 40.800.