Í ágúst voru að jafnaði 200.800 manns á aldrinum 16 til 74 ára á vinnumarkaði, sem jafngildir 83,1% atvinnuþátttöku að því er Hagstofan greinir frá. Af þessum fjölda voru 5.000 án vinnu og í atvinnuleit en 195.800 starfandi, sem gerir 2,5% atvinnuleysi og að sama skapi að 81% væru starfandi af heildarmannfjöldanum.

Á milli ágústmánaðar í ár og í fyrra dróst atvinnuþátttakan saman um 2,3 prósentustig, en fyrir ári síðan nam hún 85,3%, en heildarfjöldi starfandi er þó nánast alveg sá sami. Á sama tíma voru 800 færri atvinnulausir í ár heldur en í ágúst í fyrra, þegar hlutfallið var 2,9%. Utan vinnumarkaðar standa svo 40.900 manns sem er um 6.300 fleiri en í ágúst 2016, en þá voru þeir 34.600.

Þegar þessar sömu tölur eru skoðaðar árstíðarleiðrétt fjölgaði atvinnulausum á milli ára úr 2,1% í 2,7% eða úr 5.300 manns, sem er fjölgun um 1.300 manns frá áætluðum fjölda í júlímánuði.

Árstíðarleiðréttur fjöldi fólks á vinnumarkaði var 196.400, sem jafngildir 82% atvinnuþátttöku en það er 0,4 prósentustiga hækkun frá því í júlí 2017. Hins vegar var leiðrétt hlutfall starfandi fólks 79,8% en á síðustu sex mánuðum hefur atvinnuþátttakan dregist saman um 0,6 prósentustig, og hlutfall starfandi lækkað um 0,6 stig.