*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 26. janúar 2017 09:28

Atvinnuleysi 2,6% í desember

Atvinnuleysi stendur nánast í stað, með frekar lítilli aukningu starfa í desember. Atvinnuþátttakan eykst þó milli ára.

Ritstjórn
Haraldur Jónasson

Í desembermánuði síðastliðnum var atvinnuþátttakan 83%, en þá voru að jafnaði 197 þúsund manns á aldrinum 16-74 ára á vinnumarkaði að því er fram kemur í frétt Hagstofunnar.

„Af þeim voru 191.900 starfandi og 5.100 án vinnu og í atvinnuleit,“ segir í fréttinni. „Hlutfall starfandi af mannfjölda var 80,8% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 2,6%.

Samanburður mælinga fyrir desember 2015 og 2016 sýnir að atvinnuþátttakan jókst um tvö prósentustig. Fjöldi starfandi jókst um 7.000 og hlutfallið af mannfjölda hækkaði um 1,4 stig.

Atvinnulausum fjölgaði um 1.500 manns og hlutfall þeirra af vinnuaflinu hækkaði um 0,7 prósentustig.“

Ef horft er til leiðréttinga vegna árstíðarbundinna sveiflna á íslenskum vinnumarkaði sést að atvinnuþáttakan lækkaði um 0,3 prósentustig í desembermánuði frá nóvember.

Fjöldi atvinnulausra í desember var einungis 100 manns færri í desember en nóvember en þegar horft er til síðustu sex mánaða þá sést að atvinnuleysi stendur nánast alveg í stað, en það hefur lækkað um 0,4 prósentustig ef horft er til síðustu 12 mánaða.

Stikkorð: atvinnuleysi Hagstofan nóvember desember