Atvinnuleysi í októbermánuði mældist 2,7%, sem er 0,7 prósentustiga lækkun frá sama tíma í fyrra, en atvinnulausum hefur fækkað um 1.700 manns frá þeim mánuði.

Þetta kemur fram í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands , en að jafnaði 197.600 manns voru á vinnumarkaði í októbermánuði þessa árs. Jafngildir það 82,5% atvinnuþátttöku, en af þeim voru 192.200 starfandi og 5.500 án vinnu. Einungis þeir sem teljast vera í atvinnuleit, og þar af leiðandi á vinnumarkaði, teljast til atvinnulausra.

Fjöldi starfandi eykst um nærri 13 þúsund

Frá því í október 2015 hefur atvinnuþátttakan aukist um 1,7 prósentustig, fjöldi starfandi hefur aukist um 12.900 og hlutfallið af mannfjölda hækkað um 2,6 stig.

Þar sem árstíðabundnar sveiflur hafa áhrif á íslenskan vinnumarkað, en ef leiðrétt er fyrir henni mælist atvinnuleysið 2,9% sem er lækkun úr 3,2% í septembermánuði.

Atvinnuleysi stendur í stað síðasta hálfa árið

„Þegar horft er til síðust sex mánaða þá sýnir leitni vinnuaflstalna að atvinnuleysi stendur nánast í stað, en á síðustu tólf mánuðum hefur það lækkað um 0,6 prósentustig,“ segir í frétt Hagstofunnar.

„Hlutfall starfandi síðustu sex mánuði hefur aftur á móti aukist um 0,5 stig og um 1,4 stig síðustu tólf mánuði.“