Á fyrsta ársfjórðungi ársins var atvinnuleysi hér á landi 2,9% en frá því á sama tíma fyrir ári fjölgaði starfandi fólki um 7.200 manns sem jafngildir hlutfallslegri aukningu um 1,2 prósentustig. Fækkaði atvinnulausum um 500 manns, og lækkaði hlutfall atvinnulausra af vinnuafli um 0,4 prósentustig, ef horft er til sömu mánuða í fyrra.

Að jafnaði voru 197.100 manns á aldrinum 16-74 ára á vinnumarkaði fyrstu þrjá mánuði ársins, en af þeim voru 191.500 starfandi og 5.600 án vinnu og í atvinnuleit. Mældist því atvinnuþátttakan í heildina 82,7% og hlutfall starfandi 80,4% sem gerir 2,9% atvinnuleysi. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar .

Unnu fleiri en 45 vinnustundir í viku

Af heildarmannfjölda voru 74,2% íbúa landsins á aldrinum 16-74 ára starfandi og voru að jafnaði 176.700 manns við vinnu í hverri viku ársfjórðungsins, sem gerir 92,3% þeirra. Meðalfjöldi heildarvinnustunda voru 39,5 klukkustundir hjá þeim sem voru í vinnu, 45,4 klukkustundir hjá þeim sem voru í fullu starfi og 23 klukkustundir hjá þeim sem voru í hlutastarfi.

Ef horft er eftir mismunandi þjóðfélagshópum sést að meira atvinnuleysi var meðal karla, eða 3,2% því 3.300 þeirra voru atvinnulausir, meðan atvinnulausar konur voru 2.300 sem gerir 2,5% atvinnuleysi meðal þeirra. Jafnframt var meira atvinnuleysi úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu, eða 3,3% á móti 2,6%.

Langtímaatvinnulausum heldur samt áfram að fjölga

Athyglisvert er að þrátt fyrir gott atvinnustig virðist hlutfall langtímaatvinnulausra, það er þeirra sem hafa verið atvinnulausir í 12 mánuði eða lengur, vera að aukast eilítið, og var það 0,3%, meðan það var var 0,2% á sama tíma fyrir ári. Fór fjöldi þeirra á tímabilinu úr 400 manns í 600 manns.

En á sama tímabili fækkaði þeim sem verið höfðu atvinnulausir í 2 mánuði eða skemur, úr 4.200 í 3.900 en á sama tíma fór hlutfall þeirra úr 69,2% árið 2016 í 69,8% árið 2017, sem er eilítil aukning.