Samkvæmt árstíðaleiðréttum tölum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar voru atvinnulausir 7.100 í september, eða 3,7%, af vinnuaflinu, sem er 0,7 prósentustigum lægra en í ágúst. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar sem birti nýjar tölur um árstíðarleiðrétt atvinnuleysi í dag.

Árstíðaleiðrétt atvinnuþátttaka var 81,5%, sem er um 1,4 prósentustigum hærri atvinnuþátttaka en í ágúst, en árstíðarleiðrétt hlutfall starfandi fólks var 77,6%.

„Þegar horft er til síðustu sex mánaða, sýnir árstíðarleiðrétt leitni að tölur um atvinnuþátttöku hafa verið nokkuð stöðugar þótt þær hafi lækkað um lítillega, eða um 1,0 prósentustig, aðallega á seinustu tveimur mánuðum. Meiri breytingar má sjá á hlutfalli starfandi, sem lækkað hefur um 1,5 prósentustig á síðustu sex mánuðum. Árstíðarleiðrétt leitni atvinnuleysis er einnig nokkuð stöðug, þótt hún hafi stigið lítillega á tímabilinu apríl til september, eða um 0,3 prósentustig.

hagstofa atvinnuleysi
hagstofa atvinnuleysi

Samkvæmt óleiðréttum mælingum er áætlað að um 206.500 manns á aldrinum 16–74 ára hafi að jafnaði verið á vinnumarkaði í september 2019. Það jafngildir 80,3% (±2,2) atvinnuþátttöku. Af vinnuaflinu reyndust 199.900 (±4.200) vera starfandi og 6.700 (±800) án vinnu og í atvinnuleit. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 77,7% (±2,4) og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 3,2% (±1,0). Óleiðréttar mælingar benda þannig til þess að þótt hlutfall starfandi af mannfjölda hafi lækkað um 1,9 prósentustig frá því í september 2018, hafi fjöldi starfandi aukist lítillega, eða um 400.

Samanburður óleiðréttra mælinga fyrir september 2018 og 2019 bendir einnig til þess að vinnuaflið hafi aukist um 3.900 manns þó að hlutfall þess af mannfjölda hafi dregist saman um 0,5 prósentustig. Þá eru fleiri áætlaðir utan vinnumarkaðar í september 2019, eða um 50.700 (±2.100), samanborið við 48.100 í september árið á undan. Þá sýna óleiðréttar mælingar hækkun á hlutfalli atvinnulausra milli ára um 1,7 prósentustig, eða frá 1,5% í september í fyrra. Rétt er þó að benda á að óleiðrétt mæling á atvinnuleysi var óvenju lág í september 2018,“ segir í frétt Hagstofunnar.